Selfyssingurinn Kristín Laufey Steinadóttir náði frábærum árangri í sinni fyrstu Ironman keppni sem fram fór í Köln í Þýskalandi í dag.
Ritstjórn vekur athygli á því að þessi frétt er frá árinu 2011.
Kristín Laufey varð í 19. sæti í keppninni á tímanum 11:28:32 klst sem er næst besti tími sem íslensk kona hefur náð í Járn-þríþraut sem samanstendur af 4 km sundi, 180 km hjólreiðum og heilu maraþonhlaupi. Tími hennar er einnig sextándi besti tími sem Íslendingur hefur náð í keppni sem þessari.
Járnkonan Kristín Laufey var fyrst kvenna til að ljúka sundinu í dag á 58:18 mínútum. Að loknum hjólreiðunum var hún í 22. sæti á 7:10:44 klst en hún hljóp sig upp um þrjú sæti í maraþonhlaupinu og lauk keppni í 19. sæti og var í 4. sæti í flokki 30-35 ára.
Járnmannskeppnin í Köln ber nafnið Cologne 226 og tóku níu Íslendingar þátt í henni, þar af þrír í hálfum Járnmanni.