Frábær árangur Selfyssinga í Gautaborg

Fimmtán frjálsíþróttakrakkar frá Ungmennafélagi Selfoss fóru til Gautaborgar í síðustu viku og kepptu á Gautaborgarleikunum með góðum árangri.

Skráningar á mótið eru 7.000 talsins og því er það gríðarleg reynsla að keppa á svona móti. Selfosskrökkunum gekk mjög vel og komu þeir heim með tvenn gullverðlaun, tvenn silfurverðlaun og tvenn bronsverðlaun auk þess sem margir þeirra bættu sig í mörgum greinum.

Styrmir Dan Steinunnarson stóð sig frábærlega á mótinu. Hann gerði sér lítið fyrir og sigraði í hástökki 13 ára stráka og setti um leið Íslandsmet þegar hann stökk yfir 1,70 m. Hann sigraði líka í spjótkasti með kasti upp á 44,10 metra. Í langstökki bætti hann besta árangur sinn þegar hann stökk 5,51 m og varð í 2. sæti. Hann varð einnig annar í kúluvarpinu með kast upp á 12,48 m.

Teitur Örn Einarsson vann bronsverðlaun í spjótkasti 14 ára stráka þegar hann kastaði 45,81 m og Sigþór Helgason krækti sér í bronsverðlaun í spjótkasti 15 ára stráka þegar hann þeytti spjótinu 51,64 m og bætti sig um rúma 2 metra.

Árangur allra keppenda Selfoss er rakinn í grein á umfs.is.

Fyrri greinSelfyssingar fari að huga að skreytingunum
Næsta greinStórleikur hjá stelpunum í kvöld