Selfoss tapaði 2-0 þegar liðið heimsótti Þór/KA á Akureyri í Pepsideild kvenna í knattspyrnu í dag. Þór/KA skaust þar með í toppsæti deildarinnar.
„Ég er mjög sáttur við frammistöðu liðsins, sérstaklega í fyrri hálfleik. Stelpurnar voru mjög kröftugar og skipulagið gekk ágætlega. Ég hefði viljað sleppa því að fá mark svo snemma á okkur en við vorum mjög flottar. Frábær frammistaða hjá liðinu á móti mjög góðu liði,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, í samtali við fotbolti.net eftir leik.
Selfyssingar sváfu á verðinum í upphafi leiks og strax á 4. mínútu kom Sandra María Jessen heimakonum yfir. Eftir það var leikurinn í járnum og fátt um færi. Það var ekki fyrr en á lokamínútu leiksins að Þór/KA skoraði seinna mark sitt, en það gerði María Gros með skalla eftir hornspyrnu.
Selfoss situr áfram í 6. sæti deildarinnar með 16 stig en Þór/KA er í toppsætinu með 38 stig.