Selfoss átti ekki í miklum vandræðum með að landa sigri gegn Þrótti í 1. deild karla í handbolta í kvöld. Liðin mættust í Vallaskóla þar sem Selfyssingar voru allsráðandi í fyrri hálfleik og lögðu þá grunninn að öruggum sigri.
Jafnt var á öllum tölum upp í 4-4 en þá tóku Selfyssingar á sprett og breyttu stöðunni í 11-5. Einar Sverrisson lék á alls oddi í upphafi leiks og skoraði að vild og þegar leið á fyrri hálfleikinn sýndi Örn Þrastarson snilli sína og skoraði nokkur lagleg mörk.
Selfyssingar spiluðu fína vörn og skoruðu í kjölfarið fjölmörg hraðaupphlaupsmörk en ekkert þeirra jafnaðist þó við mark Andra Más Sveinssonar sem virtist vera að missa af boltanum eftir sendingu yfir allan völlinn frá Sebastian Alexanderssyni markverði. Andri Már greip boltann á ferðinni alveg við vítateig Þróttar og skoraði af öryggi í skrefinu.
Í raun gekk allt upp hjá Selfyssingum í fyrri hálfleik enda höfðu þeir tíu marka forskot í leikhléi, 21-11. Þar með höfðu þeir skorað einu marki minna á 30 mínútum en skoruðu á 60 mínútum í tveimur undanförnum leikjum.
Síðari hálfleikur var mun rólegri, jafnræði var með liðunum framan af og munurinn áfram átta til tíu mörk. Þeir vínrauðu girtu sig þó í brók undir lokin og luku leiknum með 5-1 áhlaupi sem tryggði þeim 33-20 sigur.
Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 10/1 mörk, Örn Þrastarson 6, Hörður Másson og Axel Sveinsson 3, Jóhannes Snær Eiríksson 3/2, Ómar Ingi Magnússon og Andri Már Sveinsson 2 og þeir Eyvindur Hrannar Gunnarsson, Sverrir Pálsson, Jóhann Erlingsson og Ómar Vignir Helgason skoruðu allir eitt mark.
Sebastian Alexandersson varði vel í síðari hálfleik en hann var samtals með 15 skot varin og 42,8% markvörslu.