Þorlákshafnar-Þórsarar lönduðu mikilvægum sigri á liði Snæfells Domino's-deild karla í körfubolta í Icelandic Glacial höllinni í kvöld. Lokatölur voru 95-92.
Búist var við miklum spennuleik í kvöld og var það einmitt raunin þar sem liðin skiptust á um að halda forystunni út allan leikinn og munurinn var aldrei mikill. Gestirnir komust reyndar í 5-14 í 1. leikhluta en Þórsarar voru fljótir að ná sér á strik og jöfnuðu 14-14. Staðan var 18-22 að 1. leikhluta loknum. Þór komst svo yfir í 2. leikhluta og leiddi í leikhléinu, 45-41.
Seinni hálfleikur var æsispennandi og staðan var 70-70 í upphafi 4. leikhluta. Eftir það voru Þórsarar skrefinu á undan og höfðu yfir allan síðasta leikhlutann – þó að munurinn hafi verið lítill.
Guðmundur Jónsson átti stórleik fyrir Þór og skoraði 28 stig. Benjamin Smith skoraði 24 stig, David Jackson 19, Darrell Flake 10, Grétar Ingi Erlendsson 8, Þorsteinn Már Ragnarsson 4 og Emil Karel Einarsson 2.
Flott barátta Þórs skilaði góðum og mikilvægum sigri í kvöld og er liðið nú í 2. sæti deildarinnar við hlið Snæfells en með betri stöðu í innbyrðis leikjum. Síðasti deildarleikur Þórsara verður í Borgarnesi á sunnudaginn, 17. mars, gegn spræku liði Skallagríms.
Allt er opið hvað úrslitakeppnina varðar en Þórsarar munu lenda í 2. eða 3. sæti deildarinnar og möguleikir andstæðingar þeirra í úrslitakeppninni eru Njarðvík, Keflavík eða KR.