Frábær sigur í Frostaskjólinu

Selfyssingar unnu 1-2 sigur á KR í 2. umferð Pepsi deildar karla í kvöld.

Selfyssingar voru frískari í upphafi og á 13. mínútu slapp Sævar Þór Gíslason innfyrir. Lars Moldskred, markvörður KR, braut á honum innan teigs og uppskar rautt spjald fyrir vikið. Ingólfur Þórarinsson fór á punktinn og kom Selfyssingum yfir með snyrtilegu skoti. Selfyssingar héldu áfram að þjarma að KR-ingum sem freistuðu þess að sækja hratt. Fátt var þó um færi en Jóhann Ólafur Sigurðsson var vel á verði í markinu.

Selfyssingar fengu draumabyrjun í síðari hálfleik þegar Jón Daði Böðvarsson kom Selfoss í 0-2 á 53. mínútu eftir vel útfærða sókn og sendingu frá Sævari Þór. Á 66. mínútu fékk Agnar Bragi Magnússon rauða spjaldið fyrir hættulega tæklingu og eftir það jókst sóknarþungi KR án þess að þeir næðu að ógna verulega. Baldur Sigurðsson minnkaði muninn í 1-2 á 86. mínútu en nær komst stórveldið ekki.

Selfyssingar fögnuðu eins og þeir hefðu unnið heimsmeistaratitil í leikslok og stigu trylltan dans með stuðningsmönnum sínum. Ekki er hægt að ljúka þessum skrifum án þess að minnast á framgöngu Skjálfta og annarra stuðningsmanna Selfoss. Þeir gjörsamlega kaffærðu KR-inga í stúkunni og gerðu Frostaskjólið svo sannarlega að sínum heimavelli.

Fyrri greinHelgi leiðir T-listann
Næsta grein„Varð að vera stóri bróðir“