KFR vann frábæran 3-0 sigur á KV í B-riðli 3. deildar karla í knattspyrnu á Hvolsvelli í kvöld og á góðan möguleika á sæti í úrslitakeppninni þegar ein umferð er eftir.
Rangæingar komust í 2-0 í fyrri hálfleik og skoraði Reynir Björgvinsson bæði mörkin, hið fyrra á 10. mínútu en það síðara úr vítaspyrnu á 44. mínútu.
Helgi Ármannsson bætti svo þriðja markinu við á 53. mínútu og þar við sat þó að bæði lið hefðu getað bætt við mörkum í leiknum sem var nokkuð opinn en Rangæingar vörðust betur og héldu markinu hreinu.
Fyrir lokaumferðina er Léttir með 26 stig á toppnum en KFR og KV hafa 25 stig. Markahlutfall Rangæinga er betra, svo munar sjö mörkum. KFR mætir Ými á útivelli í lokaumferðinni og þarf að vinna þann leik því reikna má með að KV eigi sigurinn vísan gegn KH sem aðeins hefur unnið þrjá leiki í sumar. Léttir mætir KFS í lokaumferðinni úti í Eyjum. Mótherjar KFR í lokaumferðinni, Ýmir, eiga einnig möguleika á úrslitakeppnissæti en þeir þurfa þá að vinna KFR og treysta á að Léttir eða KV misstígi sig.
Þess má svo til gamans geta að Rangæingar hafa nú 25 stig en samanlagður stigafjöldi liðsins, frá því það hóf aftur að leika á Íslandsmóti á árunum 2007 til 2010 er 23 stig.