Selfyssingar unnu góðan 2-1 sigur á ÍBV í 1. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu og smelltu sér þar með á topp deildarinnar.
Fyrir leikinn var mínútu þögn til minningar um Steingrím Jóhannesson, framherja ÍBV og Selfoss, og léku bæði lið með sorgarbönd til að minnast hans.
Leikurinn fór fjörlega af stað og eftir fimm mínútur var Valgeir Valgeirsson dómari búinn að dæma vítaspyrnu eftir að brotið var á Jon Andre Royrane innan teigs. Ólafur Karl Finsen fór á punktinn og setti boltann af miklu öryggi í markhornið. Frábær byrjun heimamanna sem fögnuðu markinu vel.
Nokkuð fjör var í leiknum á fyrstu mínútunum og eftir tíu mínútna leik var Valgeir dómari búinn að veifa gula spjaldinu þrisvar á loft.
Leikurinn jafnaðist nokkuð um miðjan fyrri hálfleik en Eyjamenn héldu boltanum betur á meðan Selfyssingar áttu stórhættulegar skyndisóknir. Jón Daði vann aukaspyrnu úr einni slíkri sókn á 33. mínútu og út frá henni fékk hann boltann inni í vítateig og lagði hann laglega í markhornið.
Ingólfur Þórarinsson virtist vera að bæta þriðja markinu við stuttu seinna er skot hans hafnaði í þverslánni og fór þaðan niður á línu en inn vildi boltinn ekki. Eftir það áttu bæði lið svo sitthvort úrvalsfærið sem bæði fóru forgörðum. Fyrst skaut Tonny Mawejje framhjá úr úrvalsfæri fyrir ÍBV og stuttu seinna skaut Abdoulaye Ndiaye yfir úr jafnvel enn betra færi heimamanna eftir gott spil í gegnum vörn gestana. Staðan því 2-0 er liðin gengu til leikhlés.
Abdoulaye Ndiaye átti fyrsta dauðafæri seinni hálfleiks og líklega bara besta færi leiksins er hann komst einn í gegnum vörn Eyjamanna á 48. mínútu en var allt of lengi að ákveða sig og Eyjamenn komust fyrir skotið.
Eftir það bökkuðu Selfyssingar mikið og Eyjamenn lágu í sókn. Færin voru þó ekki mörg og skyndisóknir Selfyssinga skiluðu litlu. Heimamenn fóru illa með færin í þessum leik og Eyjamenn komu sér heldur betur í séns til að refsa fyrir það á 83. mínútu er Þórarinn Ingi Valdimarsson minnkaði muninn úr vítaspyrnu. Vítið fengu Eyjamenn eftir að boltanum var spyrnt í hendi Endre Ove Brenne í teignum.
Lengra komust Eyjamenn þó ekki og Selfyssingar fögnuðu sigri í leikslok. Flottur leikur hjá nýliðunum sem ekki hefur verið spáð góðu gengi í sumar.
Rúmlega tólfhundruð gestir voru á vellinum og hefðu þeir að ósekju mátt láta meira í sér heyra en stemmningin var þó mögnuð á síðustu tíu mínútunum, eftir að ÍBV hafði minnkað muninn.