Selfyssingur stjórnar fyrstu beinu sjónvarpsútsendingunni frá knattspyrnuleik á Selfossi. Selfoss-Keflavík er í beinni á Stöð2Sport í kvöld.
Það er Jóhann Bjarni Kjartansson sem stjórnar útsendingunni á Stöð2Sport en hann hefur stjórnað samskonar útsendingum í sumar eftir að hafa starfað á Stöð2 í áraraðir.
„Þetta er ellefti leikurinn minn í sumar og ég verð að segja að það er frábært að koma loksins á Selfoss,“ segir Jóhann í samtali við sunnlenska.is.
Útsendingarbíll Stöðvar2Sport er staðsettur fyrir aftan nyrðra markið á vellinum og þann stað þekkir Jóhann vel, enda uppalinn nokkrum metrum norðar, á Birkivöllunum. „Já, ég var boltastrákur á þessum punkti fyrir meira en tuttugu árum,“ segir Jóhann hlæjandi en nú hvílir aðeins meiri ábyrgð á herðum hans.
„Það starfa fjórtán manns að útsendingunni með fimm myndavélar og ég stýri því hvaða myndavél er notuð í hvert skipti. Starf mitt felst í raun í að samræma og stýra aðgerðum þeirra þrettán sem starfa með mér, upptökumanna, hljóðmanna, grafíkera og auðvitað þulanna sem lýsa leiknum,“ sagði Jóhann að lokum.