Frábært stökk hjá Styrmi

Styrmir Dan Steinunnarson, Umf. Þór, gerði sér lítið fyrir og stórbætti í dag Íslandsmetið í hástökki innanhúss í 14 ára aldursflokki þegar hann sveif yfir 190 sentimetra.

Styrmir Dan var meðal keppenda á Aðventumóti Ármanns í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal. Hann tvíbætti metið, stökk fyrst yfir 186 sm og bætti svo um betur þegar hann átti frábært stökk yfir 190 sm. Gamla metið var 28 ára gamalt en það átti Þröstur Ingvason, USAH, 185 sm.

Með þessum árangri bætti Styrmir Dan árangur sinn í greininni um tíu sentimetra en hann er sjálfur 174 sm á hæð og stekkur því 16 sm yfir eigin hæð.

Styrmir var ekki eini methafi dagsins því Hulda Sigurjónsdóttir, Suðra, bætti Íslandsmet í sínum fötlunarflokki (F20) í kúluvarpi kvenna með kasti upp á 9,20 m.

Myndband af stökki Styrmis má sjá á Facebooksíðu Sunnlenska.is.

Fyrri greinHamar með góð tök á Val
Næsta greinStóðu sig með prýði í beltaprófi