Hamar-Þór gerði sér lítið fyrir og lagði deildarmeistara Ármanns í fyrsta leik liðanna í úrslitakeppni 1. deildar kvenna í körfubolta, 72-83 á útivelli í Kennaraháskólanum í kvöld.
Þær sunnlensku mættu tilbúnar í leikinn og leiddu frá fyrstu mínútu. Staðan var 11-25 eftir 1. leikhluta og í 2. leikhluta náðu þær 26 stiga forskoti. Staðan í hálfleik var 30-48.
Seinni hálfleikurinn var jafnari en Hamar-Þór varðist öllum áhlaupum Ármanns. Smá spenna hljóp í leikinn í upphafi 4. leikhluta þegar Ármenningar höfðu minnkað muninn í 60-67 en þá steig Hamar-Þór upp og kláraði leikinn af öryggi.
Eins og oft áður var Astaja Tyghter með risaframlag fyrir Hamar-Þór, 30 stig og 16 fráköst. Julia Demirer og Hildur Björk Gunnsteinsdóttir voru sömuleiðis öflugar.
Liðin mætast aftur í Hveragerði á föstudaginn en í þessu einvígi þarf þrjá sigra til að tryggja sér sæti í úrslitaviðureign deildarinnar, þar sem Ármann eða Hamar-Þór mæta annað hvort ÍR eða KR.
Tölfræði Hamars-Þórs: Astaja Tyghter 30/16 fráköst/5 stoðsendingar, Hildur Björk Gunnsteinsdóttir 15/6 stoðsendingar/5 stolnir, Hrafnhildur Magnúsdóttir 14, Julia Demirer 10/14 fráköst, Helga María Janusdóttir 6, Lovísa Bylgja Sverrisdóttir 5, Gígja Rut Gautadóttir 3.