Knattspyrnufélag Rangæinga sem leikur í 4. deild Íslandsmótsins sló 3. deildarlið KH úr leik í Mjólkurbikar karla í knattspyrnu í dag.
Leikur liðanna á Selfossvelli var markalaus allt þar til á 69. mínútu að Przemyslaw Bielawski skoraði eina mark leiksins. Baráttuglaðir Rangæingar héldu markinu hreinu til loka og fögnuðu góðum sigri.
KFR mætir Gróttu í 2. umferðinni næstkomandi fimmtudag.
Mettap hjá Árborg
Knattspyrnufélag Árborgar fékk flengingu þegar liðið mætti 3. deildarliði Augnabliks í Fífunni. Árborgarar hefðu getað komist yfir í upphafi leiks en Aron Freyr Margeirsson tók vítaspyrnu á 10. mínútu sem fór í súginn. Í kjölfarið fylgdu þrjú mörk frá Augnabliki og staðan var 3-0 í hálfleik.
Augnablik bætti við þremur mörkum til viðbótar um miðjan seinni hálfleik áður en Sigurður Eyberg Guðlaugsson minnkaði muninn í 6-1 á 83. mínútu.
Markasúpan var þó ekki fullelduð því Augnablik bætti við tveimur mörkum á lokakaflanum og lokatölur urðu 8-1. Stærsta tap Árborgar í bikarkeppninni í 19 ára sögu félagsins.