Frábær stemning í Bakgarðspíslinni

Við ráslínuna á hring sextán í Bakgarðspíslinni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það var frábær stemning í Bakgarðspíslinni 2025 sem hlaupahópurinn Frískir Flóamenn stóð fyrir í Hellisskógi við Selfoss í dag.

Alls tóku 90 hlauparar þátt í hlaupinu að þessu sinni, sem er metþátttaka, en þetta er í fjórða sinn sem hlaupið er haldið. Veðrið lék við hlauparana í dag og var létt yfir mannskapnum þegar sunnlenska.is leit við í Hellisskógi.

Í Bakgarðspíslinni er hlaupin 1 míla (1,67 km) á hverjum 15 mínútum, frá Grímsklettum upp að Helli. Ræst er á korters fresti og þurfa þátttakendur að skila sér í mark innan 15 mínútna til að mega leggja af stað í næstu ræsingu.

Fyrstu hlaupararnir voru ræstir klukkan 8 í morgun og síðasta ræsing var kl. 15:30. Hægt var að hefja hlaupið hvenær sem var dagsins og voru margir sem nýttu sér það og hlupu nokkra leggi yfir miðjan daginn.

Sjö hlauparar kláruðu Píslina og hlupu 30 leggi eða samtals 50,7 kílómetra.

Sjö hlauparar kláruðu Píslina (f.v.) Árni Laugdal, Steinunn Hansdóttir, Guðný Hrund Rúnarsdóttir, Sigurður Júlíusson, Aníta Rós Aradóttir, Finnur Jónsson og Össur Björnsson. Ljósmynd/Aðalbjörg Skúladóttir

Myndirnar hér fyrir neðan tók Guðmundur Karl.

Fyrri greinHamar/Þór með bakið upp við vegg
Næsta greinSelfoss úr leik í bikarnum