Fram hafði betur í botnslagnum

Embla Dís Gunnarsdóttir sækir að marki Fram en Telma Steindórsdóttir er til varnar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Útlitið batnaði ekki hjá Selfyssingum í 1. deild kvenna í knattspyrnu í kvöld en liðið tapaði gegn Fram á heimavelli í sannkölluðum botnslag.

Liðin voru í 8. og 9. sæti fyrir leik en með sigri hefði Selfoss getað jafnað Fram að stigum. Þær vínrauðu fóru ágætlega af stað í kvöld en eftir fimmtán mínútna leik tóku Framarar leikinn algjörlega yfir. Þeim tókst þó ekki að skora og staðan var 0-0 í hálfleik.

Framarar voru sterkari í seinni hálfleiknum og þær komust yfir á 67. mínútu með skallamarki Murielle Tiernan eftir fyrirgjöf frá vinstri. Á 80. mínútu gerðu gestirnir svo úr um leikinn og nú var það Alda Ólafsdóttir sem skallaði boltann í netið af stuttu færi – aftur eftir fyrirgjöf frá vinstri.

Embla Dís Gunnarsdóttir fékk besta færi Selfyssinga í uppbótartímanum þegar hún átti skalla að marki en Framarar björguðu á línu. Lokatölur 0-2.

Selfoss er áfram í 9. sæti deildarinnar, með 9 stig en Fram lyfti sér með sigrinum upp í 6. sætið með 15 stig.

Fyrri greinGissur ráðinn sviðsstjóri hjá MAST
Næsta greinUppsveitir og KFR töpuðu