Selfyssingar riðu ekki feitum hesti frá heimsókn sinni í Laugardalinn í kvöld. Framarar höfðu betur, 3-1.
Framarar byrjuðu betur og fengu fyrsta færið eftir um sjö mínútna leik en Jóhann Ólafur Sigurðsson varði þá vel frá Almarri Ormarssyni. Þremur mínútum síðar átti Sævar Þór Gíslason skot í stöng en strax í næstu sókn komust Framarar yfir. Almarr var þá á auðum sjó í teignum og fékk boltann eftir mikinn vandræðagang í vörn Selfoss.
Á 20. mínútu átti Arilíus Marteinsson hörkuskot að marki sem fór í hönd Ívars Björnssonar inni í vítateig. Magnús Þórisson, dómari, var ekki í stuði í kvöld og ákvað að hvíla flautuna í þessu tilviki. Selfyssingar fengu þess í stað hornspyrnu og eftir klafs í teignum kom Sævar Þór boltanum í netið.
Tíu mínútum síðar átti Arilíus frábæra sendingu inn á Sævar sem náði ekki krafti í skot sitt og Framarar hreinsuðu á línu. Framliðið átti svo næsta leik og komust í 2-1 á 38. mínútu með glæsilegu marki. Hjálmar Þórarinsson fór þá illa með vörn Selfoss og á endanum barst boltinn á Almarr sem skoraði 2-1.
Fyrstu tuttugu mínútur síðari hálfleiks voru Selfyssingar sterkari aðilinn en náðu þó ekki að skapa nein alvarleg færi. Sævar Þór fékk besta færið þegar hann slapp inn í teig á 59. mínútu en var kominn í þrönga stöðu þegar hann náði skoti að marki sem Hannes Þór varði í marki Fram. Fimm mínútum síðar skoruðu Framarar þriðja mark sitt úr skyndisókn og gerðu út um leikinn. Almarr Ormarsson kórónaði þar þrennu sína.
Síðustu tíu mínútur leiksins sóttu Selfyssingar mikið en markið lét á sér standa. Jón Guðbrandsson átti ágætan skalla að marki og Viktor Unnar Illugason átti skot í utanverða stöngina á marki Fram. Agnar Bragi Magnússon átti síðasta færið á lokamínútunni en Hannes Þór bjargaði málunum fyrir Fram.
Byrjunarlið Selfoss: Jóhann Ólafur Sigurðsson (M), Martin Dohlsen, Agnar Bragi Magnússon, Jón Guðbrandsson, Guðmundur Þórarinsson, Sævar Þór Gíslason (F) (Bolou Guessan +74) , Einar Ottó Antonsson, Jean Stephane YaoYao, Jón Daði Böðvarsson, Arilíus Marteinsson (Viðar Örn Kjartansson +70), Viktor Unnar Illugason.