Fram tryggði sér í kvöld sæti í úrvalsdeild karla í knattspyrnu á næstu leiktíð með 2-1 sigri á Selfyssingum í Safamýrinni í kvöld.
Framarar hafa verið langbesta lið 1. deildarinnar í sumar en Selfyssingar gáfu þeim hörkuleik í kvöld. Það blés reyndar ekki byrlega í upphafi en strax á 3. mínútu komust Framarar yfir eftir fast leikatriði. Mörkin urðu ekki fleiri í fyrri hálfleik og Selfyssingar fóru vel yfir málin í leikhléinu.
Selfossliðið var ferskara í seinni hálfleiknum en það voru áfram heimamenn sem héldu stjórninni á leiknum. Þeir komust í 2-0 á 55. mínútu en Selfyssingar gáfust ekki upp og á 67. mínútu skoraði Gary Martin gott mark eftir sendingu frá Þór Llorens Þórðarsyni. Bæði lið áttu ágætar sóknir á lokakafla leiksins en mörkin urðu ekki fleiri og Framarar fögnuðu sigri og sæti í efstu deild.
Þróttur tapaði fyrir Grindavík í kvöld þannig að staðan í fallbaráttunni er óbreytt. Selfyssingar eru í 10. sæti með 15 stig en Þróttur í fallsæti með 10 stig og þar fyrir neðan er Víkingur Ó með 5 stig.