Búið er að fresta leik Grindavíkur og Þórs frá Þorlákshöfn í fyrstu umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik sem átti að fara fram í kvöld. Svæsin matareitrun herjar á lið Þórs.
mbl.is greinir frá þessu og ræðir við Einar Árna Jóhannsson, þjálfara Þórs.
„Við vorum á Spáni í síðustu viku og það kom í ljós í gær að það eru sjö leikmenn sem eru alveg frá, 11 af 14 leikmönnum hafa veikst og búið að staðfesta að þetta er kampýlóbakter-sýking,“ segir Einar Árni.
Einar segir að einkennin séu mismikil, en Halldór Garðar Hermannsson hefur til að mynda tvívegis verið lagður inn á sjúkrahús og fengið þar næringu í æð. Hann gæti verið nokkrar vikur að jafna sig.
„Hinir eru sem betur fer flestir að þokast í rétta átt, en í það minnsta sjö sem hefðu ekki getað spilað í dag,“ sagði Einar Árni. Hann segir einkennin hafa komið fram á mismunandi tíma, en Þór vann leik við KR í meistarakeppni KKÍ á sunnudag.
Í tilkynningu frá KKÍ segir að mótanefnd samþykkti beiðni Þórs um frestun á leiknum eftir að hafa fengið læknisvottorð sem staðfestir að stór hluti leikmanna Þórs eru óleikfærir vegna veikinda.