Til stóð að Selfoss-U og Haukar-U myndu mætast í Grill 66 deild karla í handbolta í gærkvöldi en leiknum var frestað á síðustu stundu.
Handbolti.is greinir frá því að skömmu áður en leikurinn átti að hefjast í Set-höllinni var honum slegið á frest vegna kórónuveirusmita. Er um að ræða einn anga tengdan smitum sem komið hafa upp í tengslum við Fjölbrautaskóla Suðurlands.
Leikmenn Hauka voru komnir á Selfoss þegar ákveðið var að fresta leiknum en óvíst er hvenær nýr leikdagur verður.