Árborg vann nauman sigur á Samherjum þegar liðin mættust á Hrafnagilsvelli í Eyjafirði í B-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu.
Árborg var sterkari aðilinn stærstan hluta leiksins en gekk illa að skapa færi framan af leik. Staðan í hálfleik var 0-0 en þegar leið á seinni hálfleikinn þyngdist sókn Árborgar verulega.
Það var þó ekki fyrr en komið var fram á þriðju mínútu uppbótartíma að Freyr Sigurjónsson, nýkominn inná sem varamaður, náði að koma knettinum í netið með góðu skoti úr teignum eftir sendingu frá Trausta Rafni Björnssyni.
Árborg er í 3. sæti riðilsins með 6 stig og mætir næst Vatnaliljum á útivelli næstkomandi fimmtudag.