Á dögunum var undirritaður nýr samstarfssamningur milli Íþróttabandalags Reykjavíkur, Frískra Flóamanna og Björgunarfélags Árborgar um brautargæslu í Laugavegshlaupinu næstu þrjú árin.
FF og BFÁ hafa séð um brautargæslu a.m.k frá 2004 og hafa fengið mikið hrós fyrir í gegnum tíðina.
Í tilkynningu frá Frískum Flóamönnum segir að þetta sé jafnan þakklátt starf og sérstaklega skemmtilegt að þjónusta hlaupara í þessari miklu áskorun sem Laugavegshlaupið er. Mikill áhugi er á utanvegahlaupum og hefur fjöldi þátttakenda í Laugavegshlaupinu margfaldast milli ára. Árið 2015 luku rúmlega 350 manns keppni en árið 2020 voru þeir um 530.
Samtals senda FF og BFÁ 50 manns í vinnu við hlaupið. Auk þess sér BFÁ um að flytja starfsfólk og búnað á starfsstöðvar. Starfstöðvar eru í Landmannalaugum, Hrafntinnuskeri, Jökultungum, Álftavatni, Hvanngili, Bláfjallakvísl, á söndunum, í Emstrum, Emstrugili, við Ljósá og Þröngá.
Næsta Laugavegshlaup er laugardaginn 17. júlí 2021. Þegar er uppselt í hlaupið.