Bæjarstjórn Árborgar samþykkti á fjárhagsáætlun ársins 2018 að hækka frístundastyrk barna í sveitarfélaginu úr 15 í 30 þúsund krónur.
Nú þegar nýtt ár er gengið í garð opnast um leið fyrir nýtingu á frístundastyrknum en hann er fyrir 5 til 17 ára börn með lögheimili í Sveitarfélaginu Árborg.
Hægt er að nota styrkinn í flestar frístundir líkt og íþróttaæfingar, tónlistarnám, líkamsrækt, skáta, dans og fleira.
Foreldrar og forráðamenn er hvattir til að nýta sér styrkinn fyrir sín börn en hægt er að nota hann strax í gegnum skráningarkerfið Nóra þegar gengið er frá skráningu barns í ákveðið frístundastarf.
Hægt er að nota styrkinn út árið 2018 en flestir hafa nýtt styrkinn ár hvert að hausti þegar gengið er frá skráningum fyrir vetrarstarfið.