Frjálsíþróttaliðið í góðum gír fyrir landsmótið

Bjarni Már Ólafsson, Vöku, bætti sinn persónulega árangur í þrístökki á innanfélagsmóti HSK í frjálsum sem fram fór á Selfossvelli í morgun.

Bjarni Már átti fína stökkseríu og frábært síðasta stökk er hann sveif eins og vindurinn vel yfir 14 metra og bætti sinn persónulega árangur, stökk 14,09 m en átti best 14,06 m síðan í fyrra. Þetta lofar góðu fyrir landsmótið. Haraldur Einarsson, Vöku og Ólafur Guðmundsson, Laugdælum, stukku einnig þrístökk og fóru báðir yfir 13 m sem er vel keppnishæft á Landsmóti.

Bjarni Már lét sér þetta ekki nægja heldur bætti sig líka í 100 m hlaupi er hann hljóp á 11,78 sek. og fór í fyrsta sinn undir 12,00 sek með löglegum vindi.Agnes Erlingsdóttir úr Laugdælum keppti líka í 100 m hlaupi og bætti sig, fór vegalengdina á 13,17 sek. en átti best áður 13,49 sek. síðan í fyrra.

Í sleggjukasti stúlkna 16 – 17 ára þá stórbætti Thelma Björk Einarsdóttir, Selfossi, árangur sinn frá því í síðustu viku er hún henti sleggjunni 39,97 m. Þetta er bæting um um rúmlega tvo metra og HSK met í hennar flokki. Thelma er í stuði þessa dagana en í síðustu viku bætti hún sig í kringlunni um tæpa tvo metra með tæplega 32 metra kasti.

Andrea Sól Marteinsdóttir, Selfossi, átti góð köst í kúluvarpi kvenna en hún kastaði 10,52 m, sem er 70 cm lengra en hún hafði áður kastað í sumar. Með þessu kasti þá vann hún sér sæti í landsmótsliði HSK í kúluvarpi. Birgir Sólveigarson Þór bætti sig svo í kringlukasti karla með því að kasta 33,81 m í síðasta kasti sínu.

Að lokum má geta þess að Guðbjörg Viðarsdóttir, Dagsbrún, sýndi gamalkunna takta er hún kastaði 36,72 m í kringlunni og sigraði en Eyrún Halla Haraldsdóttir, Selfossi, varð önnnur með 30,36 m.

Það er því ljóst að keppendur HSK í frjálsum á landsmótinu er komnir í rétta gírinn og nú liggur leiðin bara upp á við.

Fyrri greinEngin hreppsnefnd lengur hjá Hrunamönnum
Næsta greinFriðartré gróðursett við Þjórsárskóla