Frjálsíþróttaskólinn haldinn í tíunda sinn

Í sumar verður Frjálsíþróttaskóli UMFÍ starfræktur í tíunda sinn á HSK svæðinu og í ár er hann á Selfossi 12.-16. júní og er haldinn í samstarfi við Frjálsíþróttaráð HSK.

Skólinn er ætlaður fyrir börn á aldrinum 11 til 18 ára. Ungmennin koma saman á hádegi á þriðjudegi og skólanum lýkur á hádegi á laugardegi í sömu viku. Aðaláhersla er lögð á kennslu í frjálsum íþróttum.

Dagskráin er fjölbreytt og skemmtileg það er til dæmis farið í sund, leiki, haldnar kvöldvökur og endar skólinn svo með móti og pylsuveislu. Þáttökugjald í skólann er 25.000 kr. (20.000 kr fyrir systkini) en innifalið í því er kennsla, fæði, gisting ofl. Skólinn er í samvinnu við Frjálsíþróttasamband Íslands og Ungmennafélag Íslands. Aðalumsjónarmenn með skólanum 2018 líkt og undafarin ár eru Ágústa Tryggvadóttir og Fjóla Signý Hannesdóttir en einnig munu fleiri þjálfarar og aðstoðarmenn vinna við skólann. Lagt er upp með að fagmenntaðir kennarar sjái um kennsluna á hverjum stað til að tryggja sem besta kennslu fyrir ungmennin.

Í lok námskeiðsins fá öll ungmennin viðurkenningarskjal til staðfestingar um þátttökuna. Skólinn hefur fengið eindæma góð viðbrögð og ungmennin hafa farið sátt heim eftir lærdómsríka, krefjandi en umfram allt skemmtilega viku.

Skólinn gegnir mikilvægu hlutverki í að opna augu ungmenna fyrir ágæti íþróttaiðkunar og styðja fjölmargar rannsóknir þá fullyrðingu að ungmenni sem stunda íþróttir leiðast síður út í óreglu síðar á lífsleiðinni. Síðast en ekki síst öðlast ungmennin tækifæri til að kynnast hvert öðru og mynda tengslanet og auka hæfni sína í mannlegum samskiptum.

Undafarin ár hefur skólinn verið full bókaður en hámarkið er við 60 iðkendur. Skólinn hefur verið fjölmennasti skólinn síðustu ár. Því er mikilvægt að tryggja sér snemma pláss í skólanum.

Skráning og nánari upplýsingar má fá í gegnum tölvupóst fjolasigny@gmail.com og agustat@hotmail.com

Fyrri greinMargt í boði í Hveragerði um páskana
Næsta greinSúrefnismæling gaf eðlilegar niðurstöður