Knattspyrnutímabilið 2025 hófst hjá Selfyssingum í kvöld þegar þeir tóku á móti Leikni R. í fyrstu umferð Lengjubikars karla.
Selfyssingar byrjuðu betur og komust í 2-0 á fyrstu tuttugu mínútunum með tveimur mörkum frá nýja leikmanninum, Frosta Brynjólfssyni. Leiknismenn sóttu þungt að marki Selfoss síðasta korterið í fyrri hálfleik og uppskáru þrjú mörk með stuttu millibili og staðan var 2-3 í hálfleik.
Frosti var ekki hættur og hann jafnaði 3-3 á þriðju mínútu síðari hálfleiks en tveimur mínútum síðar komust Leiknismenn aftur yfir. Brynjar Bergsson jafnaði fyrir Selfoss á 68. mínútu en Leiknismenn voru sprækir og þeir skoruðu sitt fimmta mark tíu mínútum síðar. Það voru hins vegar Selfyssingar sem áttu lokaorðið og Daði Kolviður Einarsson jafnaði metin í uppbótartímanum. Lokatölur 5-5 á Selfossvelli.
Liðin skiptu því með sér stigunum og sitja í 2. og 3. sæti riðils-4 í A-deildinni. Næsta verkefni Selfyssinga er heimaleikur gegn Stjörnunni næstkomandi þriðjudagskvöld en önnur lið í riðlinum eru KR, ÍBV og Keflavík.