Körfuknattleiksfélag FSu vann annan leik sinn í 1. deild karla í körfubolta í vetur þegar Augnablik kom í heimsókn í Iðu á föstudagskvöld. Lokatölur voru 94-86.
FSu komst yfir í upphafi leiks áður en gestirnir vöknuðu og breyttu stöðunni í 7-8. Þá kom 11-2 kafli frá FSu sem leiddi 21-15 að loknum 1. leikhluta.
Aungablik jafnaði strax í 2. leikhluta og eftir það var leikurinn í járnum fram að hálfleik. Liðin skiptust á um að hafa forystuna en FSu var skrefinu á undan undir lok fyrri hálfleiks og leiddi 43-41 í hálfleik.
Baráttan hélt áfram fyrstu fjórar mínúturnar í síðari hálfleik en þá tók við góður kafli heimaliðsins sem náði níu stiga forskoti áður en 3. leikhluti var flautaður af. FSu náði síðan á seiglunni að halda forskotinu út fjórða leikhluta en lokatölur voru 94-86.
Ari Gylfason var bestur í liði FSu með 31 stig og átta fráköst, Matt Brunell skoraði 19 stig og tók tíu fráköst eins og Svavar Ingi Stefánsson sem skoraði 17 stig.
FSu hefur nú fjögur stig eins og Haukar og Þór Akureyri en liðin eru í 5.-7. sæti.