FSu tapaði 96-84 þegar liðið mætti Breiðabliki í hörkuleik í 1. deild karla í körfubolta í gærkvöldi.
FSu elti Blika allan fyrri hálfleikinn en staðan var 50-39 í leikhléi. Það dró svo vel saman með liðunum í 3. leikhluta en munurinn var minnstur þrjú stig, 70-67. Forskot Blika var ennþá þrjú stig þegar síðasti fjórðungurinn var hálfnaður, 77-74, en á lokakaflanum gáfu heimamenn í og náðu að halda FSu liðinu í þægilegri fjarlægð.
Það er ljóst að FSu nær ekki sæti í úrslitakeppninni þennan veturinn, en liðið á tvo leiki eftir í deildinni. FSu er í 7. sæti með 14 stig.
Terrence Motley var stigahæstur hjá FSu í gærkvöldi með 32 stig og 19 fráköst. Ari Gylfason skoraði 14 og tók 8 fráköst og Hlynur Hreinsson skoraði 12 stig.