Slæm byrjun varð FSu að falli þegar liðið mætti Haukum á útivelli í Domino’s-deild karla í körfubolta í kvöld.
Haukar hófu leikinn með miklum látum, komust í 17-4 og leiddu 31-14 að loknum 1. leikhluta. Staðan var 59-38 í hálfleik og fátt um varnir hjá FSu, eins og tölurnar gefa til kynna.
Seinni hálfleikur var jafn en forskot Hauka var orðið of mikið til þess að FSu gæti svarað fyrir sig. Chris Caird var yfirburðamaður hjá FSu í kvöld en aðrir lykilmenn liðsins voru langt frá sínu besta.
FSu þarf því enn að bíða eftir fyrsta sigri sínum í deildinni en liðið er stigalaust, eins og hinir nýliðarnir í Hetti, þegar fimm umferðum er lokið.
Tölfræði FSu: Cristopher Caird 30 stig/6 fráköst (27 í framlag), Birkir Víðisson 9 stig/4 fráköst, Maciej Klimaszewski 8 stig, Hlynur Hreinsson 8 stig/8 stoðsendingar, Christopher Anderson 8 stig/4 fráköst, Gunnar Ingi Harðarson 7 stig, Ari Gylfason 6 stig/4 fráköst, Geir Elías Úlfur Helgason 6 stig, Arnþór Tryggvason 4 stig/5 fráköst, Svavar Ingi Stefánsson 2 stig.