Lið FSu tapaði naumlega fyrir Fjölni þegar liðin mættust í 1. deild karla í körfubolta í Iðu á Selfossi í kvöld. Lokatölur voru 75-81.
FSu skoraði sjö fyrstu stigin í leikunm og leiddi 13-4 eftir rúmar þrjár mínútur. Þá tóku gestirnir við sér en FSu hafði forystuna, 27-20 þegar fyrsti fjórðungurinn var flautaður af.
FSu náði ellefu stiga forskoti í upphafi 2. leikhluta, 36-27, en eftir það höfðu Fjölnismenn undirtökin og náðu þeir að jafna metin fyrir hálfleik, 45-45.
Þriðji leikhlutinn var hnífjafn og staðan að honum loknum 64-64 en gestirnir tóku málin í sínar hendur í lokaleikhlutanum. Þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir var staðan 71-73 og Fjölnismenn luku svo leiknum á 4-8 áhlaupi þar sem vítaskotin voru ekki að detta niður hjá Selfyssingum.
Collin Pryor var besti maður vallarins og dró vagninn fyrir FSu en sárlega vantaði meira framlag frá öðrum leikmönnum. Pryor skoraði 37 stig en næstur honum komu Ari Gylfason með 13 stig og Svavar Ingi Stefánsson með 11 stig. Erlendur Ágúst Stefánsson skoraði 7 stig, Birkir Víðisson 4 og Hlynur Hreinsson 3.
Með sigrinum fór Fjölnir uppfyrir FSu en bæði liðin hafa 6 stig í 4.-5. sæti deildarinnar.