Lið FSu vann góðan sigur gegn sterku liði Hauka í kvöld í 8-liða úrslitum unglingaflokks í Íslandsmótinu í köfubolta 107-89 í kaflaskiptum leik. FSu endaði í 4. sæti í deildinni og Haukar voru í 5. sæti og var því búist við hörkuleik í Iðu kvöld.
Gestur Einarsson frá Hæli skrifar úr Iðu.
FSu mun því leika til úrslita um helgina í TM-höllinni í Keflavík næstu helgi ásamt Grindavík, Tindastól og KR en leikið er til undanúrslita á laugardeginum klukkan 17:00 og 19:00. Úrslitaleikirnir fara fram á sunnudag.
Haukar byrjuðu leikinn betur í kvöld og leiddu mest allan fyrsta leikhluta þar til er tvær mínútur voru eftir jafnaði FSu í 19-19 og staðan var 25-21 er flautað var til 2. leikhluta. Liðin skiptust á stigum í byrjun 2. leikhluta og var staðan 33-26 er sex mínútur voru eftir af honum. FSu náði svo góðum kafla og leiddi með fimmtán stigum er flautað var til hálfleiks, 55-40.
Gestirnir úr Hafnafirði komu miklu sterkari til leiks í síðari hálfleik og náðu að minnka muninn niður í sjö stig er þrjár mínútur voru eftir af 3. leikhluta. Staðan að honum loknum var 75-63. Fjórði leikhluti byrjaði líkt og annar þar sem liðin skiptust á að skora stig og var staðan 87-74 fyrir FSu er fimm mínútur voru eftir af leiknum. Heimamenn tóku að lokum góðan kafla og voru Haukar í vandræðum með að hitta á meðan FSu raðaði niður stigum og urðu lokatölur 107-89.
Gunnar Ingi Harðarson var stigahæstur í liði FSu með 23 stig, Birkir Víðisson skoraði 19, Maciek Klimaszewski 16, Geir Helgason 12, Adam Ólafsson 10, Þórarinn Friðriksson og Bjarni Geir Gunnarsson 5, Hilmir Ægir Ómarsson 3 og Jörundur Hjartarson 2.