FSu tryggði sér í kvöld sæti í úrvalsdeild karla í körfubolta á næstu leiktíð með því að vinna Hamar 93-103 í rosalegum oddaleik í Frystikistunni í Hveragerði.
Annan leikinn í röð var uppselt á leik í Hveragerði, og gott betur núna, því Frystikistan var troðfull og stemmningin mögnuð í stúkunni.
Hamar byrjaði betur í leiknum og náði strax góðri forystu, 14-5. Þá tók við þriggja stiga skothríð frá FSu sem komst yfir fyrir lok fyrsta leikhluta, 24-25.
FSu liðið var betra í 2. leikhluta og jók þar forskotið upp í níu stig, en það sem einkenndi liðið á þessum kafla var gott framlag frá hverjum einasta leikmanni sem kom inn á völlinn. Skólapiltarnir voru mun ákveðnari og leiddu í hálfleik, 46-54.
Hvergerðingar náðu greinilega ekki að ráða ráðum sínum nægilega lengi í leikhléinu, því þeir mættu vankaðir til leiks og vöknuðu ekki fyrr en eftir aukalegan reiðilestur frá Hallgrími þjálfara í upphafi seinni hálfleiks.
Eftir það var 3. leikhluti í járnum og munurinn tíu stig þegar komið var að síðasta fjórðungnum, 67-77.
Framan af fjórða leikhluta virtist hins vegar sem allur vindur væri úr Hamarsliðinu og FSu náði fimmtán stiga forskoti eftir þrjár mínútur, 70-85. Sá munur hélst allt þar til tæpar fjórar mínútur voru eftir. Þá hrökk Frystikistan aftur í samband, Hamar raðaði niður níu stigum í röð og munurinn var aðeins fimm stig þegar rúm mínúta var eftir, 87-92.
Það féll hins vegar ekkert með Hamri á lokamínútunni, opin skot geiguðu og lausir boltar féllu í hendur Selfyssinga, eins og oft áður í leiknum.
Ari Gylfason raðaði niður 6/6 vítaskotum fyrir FSu á lokamínútunni en stærstu tilþrifin í lokin átti Arnþór Tryggvason sem tók dýrasta sóknarfrákast leiksins og tryggði FSu endanlega sigurinn með risastóru sniðskoti í kjölfarið þegar sextán sekúndur voru eftir. Arnþór spilaði aðeins 51 sekúndu í leiknum en hann lagði allt sitt í leikinn þann tíma, rétt eins og allir liðsfélagar hans.
FSu fagnaði sigri ásamt góðum hópi stuðningsmanna en liðið snýr nú aftur í deild þeirra bestu eftir fimm ára fjarveru. FSu lék síðast í deildinni á árunum 2008-2010.
Collin Pryor var stigahæstur hjá FSu með 24 stig og 10 fráköst. Ari Gylfason skoraði 23 stig, Hlynur Hreinsson 18. Þessir þrír dúxuðu í kvöld og sérstaklega var gaman að sjá Hlyn stíga upp í baráttunni við Lárus Jónsson úti á gólfinu. Erlendur Stefánsson og Maciej Klimaszewski áttu líka mjög fínan leik, rétt eins og allt liðið. Erlendur skoraði 13 stig og Maciej 9. Svavar Stefánsson skoraði 7 stig, Birkir Víðisson 5 og þeir Arnþór Tryggvason og Þórarinn Friðriksson skoruðu 2 stig hvor.
Hjá Hamri voru það aðeins Örn Sigurðarson og Julian Nelson sem sýndu einhvern stöðugleika í leiknum. Örn var stigahæstur með 32 stig og Nelson skorað 31 stig en var aðeins með 40% skotnýtingu í leiknum. Þorsteinn Gunnlaugsson skoraði 11 stig, Bjarni Rúnar Lárusson 8, Sigurður Orri Hafþórsson og Snorri Þorvaldsson 5 og Lárus Jónsson 1 stig.