FSu lék til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í unglingaflokki karla í körfubolta gegn Grindavík í gær. Liðið komst í úrslitaleikinn eftir frábæra frammistöðu og sigur gegn Tindastóli í undanúrslitum á laugardag. Þar urðu lokatölur 85-84 í háspennuleik.
Grindvíkingar reyndust hins vegar sterkari í úrslitaleiknum og unnu sanngjarnan sigur, 71-57. Staðan í hálfleik var 42-25. FSu liðið hampaði hins vegar silfurverðlaununum og geta leikmenn liðsins verið stoltir af árangri sínum í vetur.
Hjá FSu-liðinu var Maciek Klimaszewski stigahæstur með 11 stig, Þórarinn Friðriksson skoraði 9, þeir Bjarni Geir Gunnarsson og Adam Smári Ólafsson 8 stig, Birkir Víðisson 7, Jörundur Snær Hjartarson 6, Gunnar Ingi Harðarson 4 og Hörður Kristleifsson og Geir Helgason skoruðu 2 stig hvor.
Í undanúrslitaleiknum gegn Tindastóli átti Gunnar Ingi stórleik, skoraði 38 stig, tók 9 fráköst, gaf 3 stoðsendingar og hitti 54% úr þristum. Maciek var líka öflugur með 16 stig og 9 fráköst.