Eftir tvo tapleiki í 1. deild karla í körfubolta í röð girti lið FSu sig í brók og vann góðan sigur á ÍA í Iðu í kvöld, 102-87.
Fyrri hálfleikur var jafn en FSu hafði undirtökin lengst af og leiddi 45-40 í hálfleik. Selfyssingar gerðu svo nánast út um leikinn í 3. leikhluta, byrjuðu á 10-3 áhlaupi og voru fljótlega komnir með tuttugu stiga forskot, 70-50. Staðan var 82-61 í upphafi 4. leikhluta og leikurinn í öruggum höndum heimamanna sem unnu að lokum fimmtán stiga sigur, 102-87.
Collin Pryor skoraði 38 stig og tók 14 fráköst fyrir FSu. Svavar Ingi Stefánsson og Ari Gylfason skoruðu 19 stig auk þess sem Ari tók 10 fráköst. Birkir Víðisson skoraði 10 stig, Hlynur Hreinsson 7 auk þess sem hann átti 10 stoðsendingar, Arnþór Tryggvason skoraði 4 stig, Erlendur Stefánsson 3 og Maciej Klimaszewski 2.
FSu er nú í 3. sæti deildarinnar með 8 stig en Fjölnir, Breiðablik og Höttur eru með jafnmörg stig og eiga leik til góða á FSu.