Liðsmenn FSu fóru illa að ráði sínu í síðasta leikhlutanum gegn Þór í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Eftir hörkuleik fengu gestirnir 85-89 sigur á silfurfati.
Leikurinn var hnífjafn framan af en í stöðunni 11-12 náðu gestirnir að slíta sig aðeins frá FSu liðinu og staðan var 15-22 eftir 1. leikhluta. Munurinn varð mestur átta stig í upphafi 2. leikhluta en þá skiptu Selfyssingar um gír, jöfnuðu 26-26 og eftir það skiptust liðin á um að hafa forystuna en staðan var 44-45 í hálfleik.
Jafnt var á flestum tölum í 3. leikhluta en Þór hafði tveggja stiga forystu þegar síðasti fjórðungurinn hófst, 66-68. Þórsarar byjuðu betur í 4. leikhluta og komust í 73-79 og virtust vera með vindinn í bakið. Ari Gylfason skaut hins vegar FSu inn í baráttuna aftur með fjórum vítaskotum í röð og þegar tæpar tvær mínútur voru eftir var staðan 81-83. Á þessum tímapunkti hafði vindáttin snúist og heimamenn komnir með byr í seglin.
Röð mistaka í síðustu sóknum FSu leiddi hins vegar til þess að þeir komust aldrei nær gestunum sem fengu boltann hvað eftir annað upp í hendurnar án þess að FSu næði að skora.
Collin Pryor var besti maður vallarins með 38 stig og 17 fráköst. Ari Gylfason skoraði 22 stig, Hlynur Hreinsson 8, Arnþór Tryggvason 7, Svavar Ingi Stefánsson 4 og Daði Berg Grétarsson 4 og Birkir Víðisson 2.