Sunnlensku liðin í 1. deild karla í körfubolta unnu bæði sína leiki í kvöld. FSu tók á móti Reyni Sandgerði í Iðu og vann 103-94 en Hamar lagði ÍA uppi á Skaga, 88-106.
Leikur FSu og Reynis var sveiflukenndur. Fyrsti leikhlutinn var í járnum og staðan að honum loknum 20-21. FSu tók góðan sprett í 2. leikhluta og leiddi í hálfleik, 53-42. Reynismenn komu hins vegar til baka í 3. leikhluta og komust yfir, 73-74. Heimamenn voru hins vegar sterkari í síðasta fjórðungnum og sigruðu að lokum með níu stiga mun.
Ari Gylfason var stigahæstur hjá FSu með 27 stig, Matthew Brunell skoraði 26 og tók 10 fráköst, Svavar Ingi Stefánsson skoraði og Daði Berg Grétarsson skoruðu 18 stig og Sigurður Orri Hafþórsson 11.
Á Akranesi lögðu Hamarsmenn grunninn að góðum sigri í fyrri hálfleik. Hvergerðingar léku þá á alls oddi og leiddu í hálfleik, 36-60. Síðari hálfleikur var mun jafnari og Skagamenn náðu að saxa lítillega á forskot Hamars.
Jerry Lewis Hollis skoraði 27 stig fyrir Hamar, Þorsteinn Már Ragnarsson 21 og Oddur Ólafsson 12.
Staðan í deildinni:
1 Valur 13 / 2
2 Haukar 12 / 3
3 Hamar 12 / 3
4 Höttur 10 / 5
5 Þór Ak. 9 / 7
6 FSu 7 / 8
7 Breidablik 7 / 8
8 Augnablik 2 / 14
9 Reynir S. 2 / 13
10 ÍA 2 / 13