Lið FSu bjargaði sér endanlega frá falli úr 1. deild karla í körfubolta með því að leggja botnlið Ármanns örugglega á heimavelli, 97-76.
FSu komst í 7-2 í upphafi leiks en slakaði svo á klónni og hleypti gestunum framúr sér. Staðan var 16-20 að loknum 1. leikhluta.
Ármann jók forskotið í 19-25 í upphafi 2. leikhluta en þá tóku skólapiltarnir fram straubrettið og jöfnuðu Ármenninga við jörðu með 27-3 leikkafla. Syrpunni lauk með troðslu frá Steven Crawford og staðan var orðin 46-28. Þannig stóðu leikar í hálfleik.
FSu skoraði fyrstu fjögur stigin í seinni hálfleik en þá tók við góður kafli gestanna sem smátt og smátt minnkuðu muninn niður í fimm stig, 71-66. FSu liðið girti sig þá aftur í brók og kláraði leikinn nokkuð sannfærandi.
Sæmundur Valdimarsson og Steven Crawford áttu fínan leik fyrir FSu, skoruðu báðir 18 stig og Crawford tók 12 fráköst að auki. Orri Jónsson skoraði 14 stig og Birkir Víðisson 10.