FSu gerði sér lítið fyrir og skellti Hamri í viðureign liðanna í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Selfyssingar voru mun betri í leiknum og unnu sanngjarnan sigur, 101-87.
FSu átti fyrsta leikhlutann með húð og hári, komst í 13-6 og leiddi að honum loknum 34-14. Þar munaði mestu um stórskotahríð FSu utan teigs en Selfyssingar settu niður níu þriggja stiga körfur í 1. leikhluta.
Heimamenn voru í sama ham framan af 2. leikhluta en þegar tæpar sex mínútur voru liðnar af leikhlutanum vöknuðu Hvergerðingar loksins af værum blundi og skoruðu tólf stig í röð. Þeir breyttu stöðunni úr 51-29 í 51-41 en FSu skoraði tvö síðustu stigin í fyrri hálfleik og staðan var 53-41 í hálfleik.
Í síðari hálfleik kláruðu Selfyssingar leikinn af stöku öryggi. Þeir voru skrefinu á undan allan seinni hálfleik og hleyptu Hamri aldrei nálægt sér. Staðan var 77-67 að loknum 3. leikhluta og munurinn jókst síðan lítillega í lokafjórðungnum.
Ari Gylfason var stigahæstur hjá FSu með 29 stig, Matt Brunell skoraði 22 og tók 11 fráköst að auki, Svavar Ingi Stefánsson 19, Daði Berg Grétarsson 12 og Karl Ágúst Hannibalsson 11.
Örn Sigurðarson skoraði 27 stig fyrir Hamar, Jerry Hollis 26, Þorsteinn Már Ragnarsson 14 og Oddur Ólafsson 10 í sínum fyrsta leik fyrir Hamar í vetur.
FSu lyfti sér upp í 6. sætið með sigrinum en Hamar er áfram í 2. sæti, sex stigum á eftir Valsmönnum sem sitja taplausir á toppnum.