FSu kom til baka í síðari hálfleik og vann frábæran útisigur á Breiðabliki í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Á sama tíma tapaði Hamar í mikilvægum leik á Egilsstöðum.
FSu skoraði fyrstu fimm stigin í leiknum gegn Blikum en heimamenn svöruðu með tíu stigum í röð og leiddu 19-13 að loknum 1. leikhluta. Breiðablik jók forskotið enn frekar í upphafi 2. leikhluta og munurinn varð mestur fimmtán stig áður en Selfyssingar svöruðu fyrir sig. FSu minnkaði muninn niður í fimm stig en Blikar luku fyrri hálfleik með 12-2 áhlaupi og staðan var 43-28 í hálfleik.
FSu liðið mætti mjög ákveðið til leiks í síðari hálfleik og var sterkari aðilinn síðustu tuttugu mínútur leiksins. Forskot Blika var étið upp af banhungruðum liðsmönnum FSu sem minnkuðu muninn í þrjú stig áður en síðasti fjórðungurinn hófst, 61-58. Síðasti leikhlutinn var æsispennandi en FSu tók framúr þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir af leiknum og sigraði að lokum með tíu stiga mun, 81-91.
Erlendur Stefánsson átti góðan leik fyrir FSu og var stigahæstur með 27 stig. Collin Pryor fór á kostum að vanda, skoraði 20 stig og tók 24 fráköst. Ari Gylfason skoraði 18 stig, Hlynur Hreinsson 14, Svavar Ingi Stefánsson 6, Maciej Klimaszewski 4 og Birkir Víðisson 2.
Hamarsmenn voru í góðum gír framan af í toppslagnum gegn Hetti á Egilsstöðum. Staðan var 20-28 að loknum 1. leikhluta en Höttur minnkaði muninn niður í 39-42 fyrir hálfleik. Þriðji leikhluti var í járnum og munurinn var fjögur stig þegar sá fjórði hófst. Þar lentu Hvergerðingar hins vegar á vegg og skoruðu aðeins níu stig gegn nítján stigum heimamanna sem höfðu forystuna síðustu fimm mínútur leiksins og sigruðu að lokum 76-70.
Þorsteinn Gunnlaugsson var stigahæstur Hamarsmanna með 19 stig, Julian Nelson skoraði 17, Örn Sigurðarson 16, Kristinn Ólafsson 5, Stefán Halldórsson og Sigurður Hafþórsson 4, Bjartmar Halldórsson 3 og Bjarni Rúnar Lárusson 2.
Þetta var fyrsta tap Hamars í vetur og liðið missti um leið Hattarmenn uppfyrir sig á toppinn. Hamar hefur sex stig í 2. sæti en FSu er í 5. sæti með fjögur stig.