FSu tapaði mikilvægum stigum í 1. deild karla í körfubolta í kvöld þegar liðið sótti Vestra heim á Ísafjörð. Lokatölur urðu 84-79.
Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en staðan í leikhléi var 38-37, Vestra í vil.
Vestramenn byrjuðu svo mun betur í seinni hálfleiknum en þeir héldu FSu í 13 stigum í 3. leikhluta og staðan var 63-50 þegar síðasti leikhlutinn hófst.
Vestri náði 10-2 áhlaupi um miðjan síðasta leikhlutann og staðan var þá orðin 73-57. FSu náði að koma til baka og var sterkari aðilinn síðustu fimm mínúturnar en tíminn var of naumur til þess að ná að brúa bilið og að lokum skildu fimm stig liðin að.
Ari Gylfason var bestir í liði FSu í kvöld, skoraði 24 stig og tók 8 fráköst. Ari var með 40% skotnýtingu og setti niður öll sín vítaskot. Terrence Motley skoraði 23 stig og tók 14 fráköst og Svavar Ingi Stefánsson skoraði 10 stig.
FSu er í 6. sæti deildarinnar með 8 stig en Vestri er í 7. sætinu með 6 stig. Þetta var þriðji sigur Ísfirðinga í vetur, og fyrsti heimasigur liðsins.