Það ætlar ekki að ganga þrautalaust fyrir FSu að koma sér í umspilssæti í 1. deild karla í körfubolta en liðið tapaði í kvöld á útivelli fyrir botnliði ÍA, 70-68.
Liðið er í harðri baráttu við Þór Ak. og Breiðablik um að komast í umspilið en hefur nú tapað fjórum dýrmætum stigum eftir töp á útivelli gegn Reyni og ÍA sem eru neðst í deildinni með tvo sigra hvort.
Selfyssingar byrjuðu vel á Skaganum í kvöld og komust í 2-11 en þá svaraði ÍA og staðan var 16-18 eftir 1. leikhluta. Annar leikhluti var í járnum en staðan í hálfleik var 35-33.
Barningurinn hélt áfram í upphafi síðari hálfleiks, FSu minnkaði muninn í eitt stig, 48-47, en þá svöruðu Skagamenn með 8-3 kafla og leiddu að loknum 3. leikhluta, 56-50.
FSu byrjaði betur í síðasta fjórðungnum og jafnaði 58-58. Skagamenn létu ekki segjast og komust yfir aftur en FSu skoraði þá sex stig í röð og komst yfir, 64-66, þegar rúm mínúta var eftir af leiknum. Sigurður Hafþórsson kom FSu í 66-68 þegar 40 sekúndur voru eftir af leiknum en Skaginn skoraði fjögur síðustu stigin í leiknum á meðan Matt Brunell misnotaði þriggja stiga skot í síðustu sókn FSu.
Brunell var stigahæstur hjá FSu með 27 stig og 11 fráköst, Ari Gylfason skoraði 16 og Sigurður Hafþórsson 13.