FSu tapaði mikilvægum stigum í 1. deild karla í körfubolta í kvöld þegar liðið beið lægri hlut gegn Þór Akureyri, 70-78 í Iðu.
FSu leiddi megnið af 1. leikhluta með litlum mun en staðan var 22-17 að honum loknum. Jafnræðið hélt áfram í 2. leikhluta en undir lok hans var FSu með 9 stiga forystu, 37-28. Þór skoraði þá átta stig í röð og staðan var 37-36 í hálfleik.
Gestirnir komust yfir með 8-2 kafla í upphafi 3. leikhluta en FSu svaraði fyrir sig og náðu forystunni aftur. Staðan var 55-50 að loknum 3. leikhluta en í upphafi þess fjórða léku Þórsarar á alls oddi og komust aftur yfir. Um miðjan 4. leikhluta náðu þeir 19-3 leikkafla, breyttu stöðunni í 60-71 þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af leiknum og gerðu þar með út um leikinn. Skólapiltar svöruðu reyndar fyrir sig undir lokin en náðu ekki að brúa bilið.
Steven Crawford var stigahæstur hjá FSu í sínum fyrsta leik með 15 stig og 12 fráköst. Sæmundur Valdimarsson skoraði 13 stig, Kjartan Kjartansson 11 og þeir Svavar Stefánsson, Orri Jónsson og Bjarni Bjarnason skoruðu allir 9 stig.
Með sigrinum fóru Þórsarar upp fyrir FSu en Selfyssingar sitja nú í næst neðsta sæti deildarinnar með fjögur stig.