Lið FSu tapaði í dag gegn Breiðablik á útivelli, 79-65, í 1. deild karla í körfubolta.
Blikar byrjuðu betur í leiknum og leiddu að loknum 1. leikhluta, 23-12, en staðan í hálfleik var 38-29.
Heimamenn stungu svo af í 3. leikhluta og gerðu þar með út um leikinn en staðan var 64-38 þegar síðasti fjórðungurinn hófst. Þar náðu Selfyssingar að klóra lítillega í bakkann en munurinn varð fjórtán stig þegar upp var staðið.
Ari Gylfason var stigahæstur hjá FSu með 15 stig, Daði Berg Grétarsson skoraði 13, Matt Brunell 12 auk þess sem hann tók 11 fráköst, Svavar Ingi Stefánsson skoraði 9 stig, Sigurður Orri Hafþórsson 8, Arnþór Tryggvason 5, Geir Elías Úlfur Helgason 2 og Karl Ágúst Hannibalsson 1.
FSu er með 14 stig í 7. sæti deildarinnar en Blikar eru með 16 stig í 6. sæti og eru tveimur stigum á eftir Þór sem er í síðasta umspilssætinu. Tvær umferðir eru eftir af deildinni.