FSu og Hamar mætast í einvígi um sæti í úrvalsdeild karla í körfubolta. Þetta varð ljóst eftir að FSu sló Val með tilþrifum úr keppni í kvöld.
FSu og Valur mættust í oddaleik í Iðu þar sem heimamenn réðu lögum og lofum frá upphafi. Staðan var 65-38 í hálfleik og Selfyssingar slógu ekki slöku við í síðari hálfleik heldur bættu í og sigruðu að lokum 108-75.
Ari Gylfason var stigahæstur hjá FSu með 33 stig og 11 fráköst, Hlynur Hreinsson skoraði 17, Collin Pryor 15 auk 11 frákasta, Birkir Víðisson skoraði 11 stig, Erlendur Stefánsson 10, Svavar Stefánsson 7, Geir Helgason 5, Haukur Hreinsson og Maciej Klimaszewski 3 og Þórarinn Friðriksson og Fraser Malcom skoruðu 2 stig hvor.
Einvígi Hamars og FSu hefst þann 9. apríl í Hveragerði.
Leikur 1 Hamar-FSu – 9. apríl kl. 19.15
Leikur 2 FSu-Hamar – 12. apríl kl. 19.15
Leikur 3 Hamar-FSu – 15. apríl kl. 19.15 ef þarf
Það lið sem fyrr vinnur tvo leiki fer upp í Domino´s deild karla.