Fuglfirðingum færðar baráttukveðjur

Fuglafjörður í Færeyjum er mörgum Selfyssingum að góðu kunnur vegna samskipta og samvinnu á ýmsum sviðum til áratuga.

Fuglafjörður hefur verið vinabær Selfoss mjög lengi en samskipti hófust millum knattspyrnudeildar Umf. Selfoss og Ítróttarfelags Fuglafjarðar á ofanverðum sjöunda áratug síðustu aldar. Þau hófust með heimsókn knattspyrnumanna frá Selfossi til Fuglafjarðar sem var svo endurgoldin af Fuglfirðingum og þannig koll af kolli í þrígang.

Kórar, eldri borgarar og skólahópar frá Selfossi hafa heimsótt Fuglafjörð en seinni ár hefur dofnað nokkuð yfir þessum samskiptum. Kjartan Björnsson, formaður menningarnefndar Árborgar, segir að vilji sé til þess að efla þessi samskipti á ný og skoðað verður betur hvernig staðið verður að því.

Ítróttarfelag Fuglafjarðar kom til Íslands á dögunum til að leika við KR í Evrópukeppninni og gerðu forsvarsmenn liðsins sér ferð í ráðhúsið á Selfossi til að óska eftir stuðningi Selfyssinga í leiknum. Sá galli var á gjöf Njarðar að sama kvöld lék Selfoss heimaleik í 1. deildinni og því erfitt um vik.

Kjartan hélt því á leikdag til Mosfellsbæjar þar sem leikmenn Fuglafjarðar gistu og færði hann formanni Fuglfirðinga, Ólavi Larsen, blómvönd með baráttukveðju frá sveitarfélaginu Árborg og um leið gjafir til leikmannanna með sömu óskum frá knattspyrnudeild Umf. Selfoss.

Færeyingarnir voru mjög þakklátir og færðu Selfyssingum gjöf til baka sem er keppnisbúningur Fuglfirðinga ásamt fána félagsins og mun þessum varningi verða komið fyrir í Tíbrá, félagsheimili Umf. Selfoss.

Á myndinni hér að neðan er lið Fuglafjarðar ásamt formanni félagsins og formanni menningarnefndar Sveitarfélagsins Árborgar.

kjartan_2fuglafjordur2011vef_880523977.jpg

Fyrri greinSkógargöngur í Þrastaskógi
Næsta greinMikil aðsókn á Laugarvatn