Í kvöld tekur kvennalið Hamars í körfubolta á móti Val í undanúrslitum Powerade-bikarsins. Það verður hátíðarstemmning í Hveragerði enda leikurinn einn sá stærsti sem Hamar spilar í vetur.
Það verður mikið um að vera fyrir leik en fyrstu 150 gestirnir sem mæta og borga sig inn fá frían hamborgara. Þetta tilboð gildir á milli 18:30-19:00 svo það er um að gera að mæta snemma og fá sér sérgrillaðan borgara hjá Lárusi formanni. Hamarsmenn vænta þess að Hvergerðingar fjölmenni og stúkan verði full af fólki þegar leikurinn hefst kl. 19:15.
Hamar er eina liðið í undanúrslitunum sem ekki leikur í úrvalsdeild. Aukinheldur er enginn erlendur leikmaður í liðinu eins og tíðkast hjá félögum í efstu deildum körfuboltans á Íslandi. Í raun er liðið einungis skipað sunnlenskum leikmönnum sem koma ýmist frá Hveragerði, Selfossi, Þykkvabæ eða uppsveitum Árnessýslu.
Leikurinn er einnig athyglisverður fyrir þær sakir að þjálfari Vals, Ágúst Björgvinsson, er fyrrum þjálfari Hamars og margir leikmanna Vals hafa áður spilað fyrir Hamar við góðan orðstír og með frábærum árangri.