Kvennalið Selfoss tapaði baráttunni um Suðurland þegar ÍBV kom í heimsókn í Pepsi-deildinni í knattspyrnu í kvöld. Eyjaliðið ók í Herjólf með 1-2 sigur í farteskinu.
„Þetta var ágætur leikur en ég er fúll yfir að hafa tapað. Við unnum algjörlega fyrir því að ná í að minnsta kosti eitt stig en það tókst ekki. Enn og aftur erum við að gera reynsluleysismistök sem gefa mark, þær áttu eitt færi í seinni hálfleik og skoruðu úr því,“ sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Hann var þó sáttur við hvernig lið sitt brást við öðru marki ÍBV. „Við höfum verið að vinna mikið með andlega þáttinn og við gefumst ekki upp eins og við sýndum á lokakafla leiksins. En þetta er gríðarlega svekkjandi tap.“
Fyrri hálfleikur var tíðindalítill framan af, einkenndist af stöðubaráttu þar sem bæði lið léku samviskusamlega eftir því sem þjálfararnir lögðu upp með. Fátt var um færi en Karítas Tómasdóttir átti ágætt skot utan af velli, rétt yfir mark ÍBV um miðjan fyrri hálfleik. Á 41. mínútu kom Elísa Viðarsdóttir svo ÍBV yfir með skoti utan af velli sem small í þverslánni og niður í markið, óverjandi fyrir Dalton og staðan var 0-1 í hálfleik.
Síðari hálfleikur var mun fjörugri en sá fyrri þar sem liðin skiptust á að sækja án þess þó að vaða í færum. Selfoss jafnaði metin á 53. mínútu þegar Erna Guðjónsdóttir sendi boltann fyrir markið, Guðmunda Óladóttir rétt missti af honum en Eva Lind Elíasdóttir var mætt á fjærstöng og mokaði boltanum framhjá Bryndísi Láru Hrafnkelsdóttur í marki ÍBV.
Eftir þetta fór baráttan fram úti á miðjum vellinum en þegar leið á leikinn þyngdust sóknir Selfoss. Ákvarðanataka Selfyssinga var oft undarleg á síðasta þriðjungi vallarins en margar sóknir runnu út í sandinn þrátt fyrir að liðið hefði mikið pláss til að athafna sig með boltann. Hreyfanleiki miðju og sóknarmanna var ekki nógu mikill til að riðla skipulögðum varnarleik ÍBV.
Á 69. mínútu skoraði Shaneka Gordon sigurmark leiksins eftir skyndisókn þar sem hún fékk stungusendingu innfyrir, steig varnarmann Selfoss út og kláraði vel framhjá Dalton. Örfáum mínútum síðar slapp Gordon aftur innfyrir en skaut í þetta skiptið rétt framhjá. Þetta voru einu dauðafæri ÍBV í seinni hálfleik en annars réðu Selfyssingar ferðinni.
Þrátt fyrir að lenda undir lögðu Selfyssingar ekki árar í bát og gerðu oft harða hríð að marki ÍBV. Besta færið fékk Guðmunda Óladóttir eftir hornspyrnu, Valerie O’Brien skallaði boltann í þverslána og þaðan barst hann á Guðmundu sem var dauðafrí í markteignum en skallaði yfir markið.
Jafntefli hefði eflaust verið sanngjörn úrslit í þessum leik en Selfosskonur voru baráttuglaðar og lögðu allt í leikinn og því var svekkjandi fyrir þær að ná ekki í að minnsta kosti eitt stig.
Ágæt mæting var á völlinn og þar voru Rangæingar fjölmennir en KFR átti fimm leikmenn í byrjunarliðum Selfoss og ÍBV og sá sjötti sat á bekknum hjá Selfossi. Athyglisverður árangur þessa litla félags sem Rangæingar geta verið stoltir af.