Þórsarar fundu aldrei flugbrautina þegar þeir heimsóttu Keflavík í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld. Keflavík sigraði 105-86.
Leikurinn byrjaði fjörlega, Keflavík var feti framar til að byrja með en Þórsarar komu til baka eftir stórskotahríð og staðan var 31-31 að loknum 1. leikhluta. Stórsókn Keflavíkur hélt áfram í 2. leikhluta en á sama tíma fóru Þórsarar að hiksta og Keflavík leiddi í leikhléi, 61-50.
Þór minnkaði muninn í sex stig í upphafi seinni hálfleiks en lengra komust þeir ekki og eftirleikurinn var í öruggum höndum Keflvíkinga. Snemma í 4. leikhluta var staðan orðin 94-76 og erfitt fyrir Þórsara að koma til baka eftir það.
Morten Bulow var stigahæstur Þórsara með 25 stig en Nikolas Tomsick var framlagshæstur með 24 stig og 8 stoðsendingar. Þórsarar söknuðu greinilega Jordan Semple sem var í leikbanni í kvöld en skörð voru einnig hoggin í raðir Keflvíkinga vegna meiðsla
Keflavík fór upp fyrir Þór með sigrinum, bæði lið hafa 12 stig og eru í 6.-7. sæti í jólafríinu. Næsti leikur Þórsara er 2. janúar í Njarðvík.
Keflavík-Þór Þ. 105-86 (31-31, 30-19, 20-19, 24-17)
Tölfræði Þórs: Morten Bulow 25, Nikolas Tomsick 24/4 fráköst/8 stoðsendingar, Ólafur Björn Gunnlaugsson 10/5 fráköst, Marreon Jackson 9/9 fráköst, Justas Tamulis 7/5 fráköst, Ragnar Örn Bragason 6/5 fráköst, Emil Karel Einarsson 5.