Selfyssingar unnu nokkuð þægilegan 3-1 sigur á Víkingi Ólafsvík í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld og styrktu stöðu sína í 2. sæti deildarinnar.
Selfyssingar komust yfir snemma leiks þegar Babacar Sarr potaði boltanum af harðfylgi yfir marklínuna eftir hornspyrnu og klafs í teignum á 6. mínútu. Selfyssingar héldu áfram að sækja og juku forskotið í 2-0 á 25. mínútu. Babacar skallaði boltann inn á teiginn eftir langt innkast og þar var Endre Brenne á undan markverði Víkinga í boltann og laumaði boltanum framhjá honum.
Víkingar tóku sig á eftir þetta og áttu nokkrar álitlegar sóknir. Á 44. mínútu minnkuðu þeir svo muninn með glæsilegum marki þegar Edin Beslija átti gott skot fyrir utan teig eftir að Víkingar höfðu fengið aukaspyrnu í hægra horninu.
Staðan var 2-1 í hálfleik en Víkingar byrjuðu betur í seinni hálfleik án þess þó að skapa mikið af færum. Ibrahima Ndiaye var nýkominn inná sem varamaður og hann skoraði með sinni fyrstu snertingu á 68. mínútu af stuttu færi eftir góða sendingu frá Jóni Daða Böðvarssyni.
Í stöðunni 3-1 fjaraði leikurinn hratt út og Selfyssingar uppskáru sanngjarnan sigur. Liðið hefur nú 16 stig í 2. sæti og þriggja stiga forskot á Hauka. Þar fyrir neðan er þéttur pakki liða sem flest eiga leik til góða á Selfoss.