Fyrirliðinn gaf tóninn

Þorkell Þráinsson skoraði fyrir Ægi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þorkell Þráinsson, fyrirliði Ægis, fór svo sannarlega fyrir sínum mönnum í kvöld sem tryggðu sér mikilvæg stig í toppbaráttu 3. deildar karla í knattspyrnu með 2-3 sigri á Víði í Garðinum.

Leikurinn var jafn og spennandi en síðasta korterið í fyrri hálfleik var ákveðinn hápunktur í leiknum þar sem mörkin komu á færibandi.

Þorkell kom Ægi yfir á 28. mínútu og fimm mínútum síðar tvöfaldaði Cristofer Rolin forskotið. Víðir svaraði fyrir sig á 37. mínútu en aftur liðu rúmar fimm mínútur og þá skoraði Þorkell þriðja mark Ægis, 1-3 í leikhléi.

Ægismenn börðust fyrir sínu í seinni hálfleiknum og héldu aftur af Víði allt fram á lokamínútu leiksins að heimamenn minnkuðu muninn í 2-3. Ægismenn voru sáttir í leikslok enda lyftu þeir sér upp í 4. sæti deildarinnar með 26 stig og eiga 1-2 leiki til góða á liðin fyrir ofan.

Fyrri greinFækkar í einangrun á Suðurlandi
Næsta greinEngin uppgjöf hjá Uppsveitamönnum