Í gær var hlaupið Kerlingarfjöll Ultra haldið í fyrsta skipti í blíðskaparveðri. Keppendur spreyttu sig á þremur vegalengdum á miðhálendinu og tókust á við krefjandi aðstæður með bros á vör.
Hlaupaleiðirnar í ár voru þrjár: 12 kílómetrar, 22 kílómetrar og 63 kílómetrar. Mest þátttaka var í 22 kílómetra hlaupinu sem ræst var út klukkan 11. Heildarhækkun á leiðinni, ef farin var 63 km leið, var um 2.100 metrar og þar munaði mestu um 500 metra hækkun eftir 40 km.
Í fyrsta sæti í karlaflokki, af þeim sem fóru 63 km, var Sigurjón Ernir Sturluson á tímanum 5:44,05 klst og í kvennaflokki var það Hildur Aðalsteinsdóttir sem fór með sigur af hólmi á tímanum 7:11,24 klst. Í 22 km vegalengdinni var það Grétar Örn Guðmundsson sem sigraði karlaflokkinn á tímanum 2:10,25 klst og Guðfinna Kristín Björnsdóttir sem sigraði í kvennaflokki á tímanum 2:36,39 klst. Í 12 km voru það Sigurður Karlsson og Sonja Sif Jóhannsdóttir sem sigruðu karla- og kvennaflokk, á tímunum 1:02,11 klst og 1:16:53 klst.
Áhuginn gefur byr undir báða vængi
„Þetta er fyrsta Kerlingarfjöll Ultra hlaupið og því sérstaklega ánægjulegt að það hafi verið uppselt nánast um leið og við buðum fólki að skrá sig. Þessi áhugi gefur okkur byr undir báða vængi og við erum strax byrjuð að útfæra hlaup næsta árs. Viðburður af þessu tagi hefur alla burði til þess að vera lyftistöng fyrir svæðið allt og hvetur okkur jafnframt til þess að hlúa að náttúrunni, aðstöðunni og svæðinu í heild sinni,“ segir Magnús Orri Marínarson Schram, starfandi framkvæmdastjóri Kerlingarfjalla–Highland Base.
Fjallahlaup sem reyna á úthald, aðlögunarhæfni og getu hafa verið að sækja í sig veðrið hérlendis og umhverfi hálendisins er kjörið fyrir hlaupara sem sækjast eftir fjölbreyttum áskorunum.
Ótrúlega skemmtilegt hlaupasvæði
Helga María Heiðarsdóttir, framkvæmdastjóri Útihreyfingarinnar og Kerlingarfjöll Ultra, segir að hálendi Íslands sé einstakt og hlauparar og aðrir sem vilja njóta útivistar í ævintýralegu umhverfi lögðu leið sína í Kerlingarfjöll til þess að taka þátt eða hvetja aðra. „Við erum hæstánægð með helgina og sérstaklega ánægð með áhugann á hlaupinu og gleðina sem skein úr augum þátttakenda eftir að hafa hlaupið um þetta stórkostlega landsvæði. Þetta eru frábærar leiðir og ótrúlega skemmtilegt hlaupasvæði. Mörg höfðu á orði að þetta væri skemmtilegasta hlaup sem þau hefðu tekið þátt í,“ segir Helga.
Hlaupaleiðirnar voru því skipulagðar í góðu samráði við Umhverfisstofnun og lágu allar um merkta gönguslóða, að sögn Helgu Maríu. Hún segir mikla áskorun að halda viðburð af þessari stærðargráðu á hálendi Íslands, meðal annars vegna þess að bera þurfi vatn og vistir fyrir þátttakendur að afskekktum drykkjarstöðvum og sjá til þess að aðföng væru næg og vel staðsett á leiðunum.
Guðni Th. meðal þátttakenda
Meðal þátttakenda í hlaupinu var Guðni Th. Jóhannesson, fráfarandi forseti Íslands, en hann ræsti jafnframt sinn flokk og flutti í leiðinni sitt síðasta formlega ávarp í embætti. Guðni er sjálfur þaulvanur hlaupari sem hefur verið sérstaklega mikill stuðningsmaður íslenskra víðavangshlaupa í gegnum tíðina.