Fyrsta frjálsíþróttamótið á Íþróttavellinum á Hellu frá því árið 2005 fór fram í gærkvöldi þegar Sumarmót Garps/Heklu fór fram.
Góð þátttaka var en 52 keppendur tóku þátt á mótinu, um 20 starfsmenn og nokkur fjöldi áhorfenda, sem verður að teljast gott. Keppt var í 400 m hlaupi, langstökki, hástökki hjá 10 ára og yngri en einnig var keppt í langstökki karla og kvenna, kúluvarpi karla og kringlukasti kvenna.
Leikgleðin var í fyrirrúmi í flokkum 8 ára og yngri og 9-10 ára og fengu allir þátttökuverðlaun, en sigurvegarar í karla og kvenna flokkum voru í langstökki: Veigar Þór Víðisson, stökk 5,32 m og Esja Sigríður Nönnudóttir, stökk 4,19 m. Í kringlu sigraði Árbjörg Sunna Markúsdóttir, kastaði 24,29 m og í kúluvarpi sigraði Veigar Þór aftur, kastaði 9,23 m.
Eitt HSK met sett á mótinu, Ragnheiður Högnadóttir, Heklu, setti öldungamet í kringlukasti í flokki 55-59 ára, kastaði 16,67 m. Þá grunar mótsstjóra einnig að kast Ágústar Sigurðssonar í kúluvarpi sé sveitarstjóramet.
Mikill uppgangur hefur verið í frjálsíþróttastarfinu á svæðinu undanfarið og reka íþróttafélagið Garpur og Ungmennafélagið Hekla allt sitt frjálsíþróttastarf saman og tefla fram sameiginlegu keppnisliði og eru iðkendur um 70 talsins.
„Það er okkar von að þetta geti orðið árviss viðburður með fjölbreyttari greinum, en í dag getum við ekki boðið upp á fleiri greinar á vellinum, enda er hann kominn verulega til ára sinna og býður ekki upp á mótahald í fjölmörgum greinum. Þá leitar hugurinn einnig til þess að halda stærri mót þegar þess gefst kostur,“ segir Ástþór Jón Ragnheiðarson, mótsstjóri og yfirþjálfari hjá Garpi/Heklu.
„Það er löngu orðin þörf á alvöru tartan velli í Rangárþingi ytra. Iðkendum bara fjölgar og árangurinn verður bara betri með hverju mótinu sem líður. Það er okkar vilji og okkar íþróttamenn eiga klárlega skilið að geta keppt og æft við betri aðstæður. Nú bíðum við bara, sveitarfélagið á næsta leik, íþróttastarfið er til staðar, nú þarf aðstöðuna,“ bætir Ástþór við.
Hér fyrir neðan má sjá myndir frá mótinu.